Við hjónin höfum starfað saman að ljósmyndun síðan 2004 og höfum við tekið þátt í nokkrum samsýningum og útgáfu þriggja ljósmyndabóka með tveimur félögum okkar. Fjórða bókin kom út vorið 2012 og er það fyrsta bókin sem við stöndum ein að.
Í Veiðivötn koma árlega hundruðir veiðimanna til að veiða silung á gjöfulasta stangveiðisvæði landsins, færri koma til að njóta landslagsins og margbreytileika þess. En Veiðivötnin eru meira en stangveiðisvæði. Á haustin koma bændur úr sveitinni til að veiða í net og eftir að veiðitíma líkur birtist þar sveit vaskra manna til að veiða í klak. Klakveiðin og fiskiræktin sem Veiðifélag Landmannaafréttar stendur fyrir eru forsenda fyrir hinni miklu veiði sem er í Vötnunum.
Með sýningunni viljum við sýna þér hvernig Vötnin eru nýtt, bæði af stangveiðimönnum og bændum. Ennfremur hvaða vinna liggur að baki þess að viðhalda hinni miklu veiði sem er í Vötnunum. En síðast en ekki síst að kynna fyrir þér fjölbreytileika og fegurð svæðisins.
Nær allar myndirnar á sýningunni er afrakstur margra ferða í Veiðivötn sumarið 2011.
Við viljum þakka Veiðifélagi Landmannaafréttar rausnarlegt framlag sem gerði okkur kleyft að halda þessa sýningu. Einnig Heklusetrinu sem leggur til sýningaraðstöðuna.